Hvað er BDSM?
Hvernig skilgreinum við eitthvað sem getur verið hluti af öllu daglegu lífi fólks? Eitthvað sem flestir tengja við svipur og fjötra?
Ef við viljum skilgreina BDSM á einfaldastan hátt þá getum við sagt að BDSM snúist um valdaskipti og/eða blæti á einn eða annan hátt. Oft á erótískan hátt en það er þó ekki endilega alltaf raunin. BDSM snýst í grunninn um samskipti milli aðila.
BDSM er regnhlífahugtak sem í sinni víðustu skilgreiningu nær yfir nánast allt sem fólki getur hugnast, svo lengi sem það lýtur þremur grundvallarreglum BDSM og er öruggt, meðvitað og samþykkt. Algengast er þó að um sé að ræða einhverskonar þörf fyrir vel afmörkuð valdaskipti, sem stundum eru undirstrikuð með fjötrum eða sársauka. Blætishneigð eða munalosti fléttast oft inn í og stundum er það eingöngu skynjunin sjálf sem fólk sækist eftir.
BDSM stendur fyrir Bindingar, Drottnun (og undirgefni), Sadisma og Masókisma, Skynjun og Munalosta. BDSM getur verið kynferðislegt, en getur einnig verið hluti af daglegu lífi fólks eða sambandsformi þess. Sem dæmi má nefna par þar sem báðir aðilar kjósa að annar aðilinn sé ráðandi (drottnandi) í sambandinu og hinn fylgir því sem sá ráðandi segir (undirgefinn).
Í BDSM skiptir öllu máli að eiga góð samskipti. Ramminn sem unnið er innan þarf að vera mjög skýr og afmarkaður. Hvað fólk vill og hvað það vill alls ekki verður að vera á hreinu. Einnig skiptir máli að allir hlutaðeigandi aðilar eru jafningjar í grunninn, jafnvel þótt þeir ákveði að haga sínum samskiptum með öðrum hætti. Oft er talað um “leik” í sambandi við BDSM þar sem BDSM leikur hefur skýrar reglur og skýrt afmarkað upphaf og endi. Eftir því sem samskiptin eru kraftmeiri þeim mun mikilvægari eru skýrar reglur.
Samþykki er hornsteinn BDSM. Samþykki er einungis gilt ef það er gefið óþvingað, alsgáð og á jafnréttisgrundvelli. Sá sem gefur samþykkið þarf að vera fullkomlega meðvitaður um hvað hann er að samþykkja. Þegar verið er að prófa sig áfram í óhefðbundnum samskiptum skiptir öllu máli að fólk tali saman um alla fleti þeirra og geti treyst hvert öðru fullkomlega. Jafnframt verður að hafa í huga, að alltaf má skipta um skoðun, draga áður gefið samþykki tilbaka og segja STOPP..
Einkunnarorð BDSM-iðkunar í hvaða formi sem hún birtist eru samþykkt, öruggt og meðvitað.
Sjá einnig fræðslugreinar um BDSM.