BDSM er skammstöfun notuð sem samheiti yfir alla þá möguleika sem geta falist í sadómasókisma, munalosta, leðurlífsstíl, og valda- og skynjunarbreytingarleikjum, og hún samanstendur í raun af þremur öðrum skammstöfunum:
- B&D
- bondage and discipline, fjötrar og agi, er skammstöfun notuð til að lýsa erótískum aga og þræls/drottnara ímyndunarleikjum.
- D&S
- dominance and submission, drottnun og undirgefni, lýsir erótískum leikjum með vald og traust. D&S leikir geta innifalið S&M leiki, en takmarkast ekki af þeim. D&S leikir geta verið algjörlega ólíkamlegir og takmarkast við svið ímyndunarinnar.
- S&M
- sadism and masochism, sadismi og masókismi, algengt hugtak notað til að lýsa erótískum athöfnum sem snúast um að valda og verða fyrir sársauka og nautn. Þó skammstöfunin vísi strangt til tekið til líkamlegra leikja, má víkka hana svo hún nái yfir leiki með drottnun og undirgefni, og hún er í raun oft notuð í jafn víðum skilningi og BDSM.
Svo hvort sem þú notar BDSM eða S&M, þá snýst þetta ekki eingöngu um nautn þess að valda og verða fyrir sársauka, heldur ná þessi hugtök yfir fjöldan allan af erótískum athöfnum sem þurfa alls ekki að snúast um sársauka. Reyndar má segja með nokkurri vissu að flestir áhugasamir um BDSM séu ekki fyrir sársaukann einan og sér.
En ef sársauki er ekki undirstöðuatriði BDSM leikja, hvað er það þá? Hvað gerir erótísk kynni að BDSM og önnur ekki? Svarið er vald. Það sem virðist vera hluti af öllum BDSM leikjum er ekki einhver ákveðin líkamleg athöfn, heldur sú staðreynd að félagar skiptast á völdum og hlutverkum.
Stundum eru þessi valdaskipti mjög afgerandi og öðrum stundum eru þau óljósari. Það skiptir ekki máli að hvaða marki er skipst á völdum svo lengi sem reynslunnar er notið. Ef skipst er á völdum, að hvaða marki sem er, má líta á kynni sem BDSM í eðli sínu.
Flestir hafa heyrt um S&M og telja það ekkert hafa með sig að gera eins og það hefur verið skilgreint venjulega. En með því að skilgreina S&M sem valdaskipti, þá innifelur sú útvíkkaða skilgreining mun breiðari hóp fólks sem áður kann að hafa talið sig ekki vera á neinn hátt fyrir S&M. Algengt dæmi er fólk sem fær erótíska útrás úr líkamlegum fjötrum. Fjötrar myndu ekki falla undir S&M samkvæmt klassískri skilgreiningu, en unnendur fjötra eiga tvímælalaust heima innan S&M. Það má jafnvel heimfæra kynlíf í hefðbundinni trúboðastellingu upp á S&M ef félagarnir hafa skipst á völdum. BDSM skammstöfunin er heppilegri til að ná yfir alla þá möguleika sem ímyndunaraflið eitt takmarkar.
Þó margir álíti að í BDSM þurfi alltaf að felast harðar líkamlegar misþyrmingar, þá er raunin sú að margir þeirra sem vilja leika með erótískt vald kjósa að gera það blíðlega. Það er auðvitað ekkert að því að ganga lengra með BDSM leiki, svo lengi sem það er gert með samþykkum félaga. Aðal munurinn á ímyndaðri húðstrýkingu og raunverulegri felst í magni, ekki í gæðum. Tilfinningarnar sem aðilarnir upplifa og njóta eru að miklu leyti þær sömu í hvoru tilfelli.
Þetta snýst allt um leiki með vald og traust. Einn aðili er valdalaus, hinn er alvaldur. Félagar bindast böndum byggðum á trausti. Spennunni við BDSM leiki hefur verið líkt við að vera hent hátt upp í loft (tolleraður) vitandi að sterkar hendur munu grípa þig. Þú getur notið hræðslutilfinningarinnar af stuttu flugi vegna þess að þú treystir því að einhver mun grípa þig. Þú finnur fyrir hræðslu og þú finnur fyrir hættu, en þessar tilfinningar breytast í notalega og ánægjulega adrenalín vímu því þú veist að þú verður ekki í raun og veru fyrir neinum skaða. Allir virðast vera spenntir fyrir „öruggri hættu“, ef marka má allan þann fjölda sem flykkist í tívolí til að komast í rússíbana og álíka græjur.
Öruggt, meðvitað og samþykkt — BDSM játningin
BDSM hefur lengi haft slæmt orð á sér. Þetta getur stafað af fólki sem stundar óábyrgt kynlíf og kallar það BDSM. En yfirleitt stafar þetta af fáfræði. Í viðleitni til að uppræta fáfræði, bæði meðal almennings og þeirra sem stunda BDSM, hefur verið tekin upp sú játning (yfirlýsing) að BDSM leikir verði að vera öruggir, meðvitaðir og samþykktir. Með öðrum orðum, ef það er ekki öruggt, ef það er ekki meðvitað, og ef það er ekki samþykkt, þá er það ekki BDSM. Allir ábyrgir unnendur BDSM fordæma athafnir sem ekki uppfylla þess þrjú megin skilyrði. Þeir sem brjóta þessar reglur eiga ekki heima í hópi áhugamanna um BDSM.
Hvað er öruggt? Hér eru nokkrar öryggisviðmiðunarreglur:
- Ekki skiptast á hættulegum líkamsvessum með félögum þínum. M.ö.o., öruggt kynlíf eða ekkert kynlíf.
- Reyndu að kynnast félaga þínum eins vel og þú mögulega getur áður en þið leikið. Ánægjuleg BDSM reynsla krefst yfirleitt heilmikils trausts milli félaganna. Þetta kemur ekki strax. Kynnist hvort öðru.
- Aldrei reyna nokkuð sem þú ert ekki tilbúinn til að gera. Sum BDSM kynni krefjast mikillar færni. Byrjaðu á að afla þér nausynlegrar þekkingar.
- Veittu alltaf heilsu og líkamlegu öryggi allra þáttakenda athygli. Það er góð hugmynd að skiptast á heilsufarsupplýsingum. Skyndihjálparnámsskeið gæti komið að gagni.
- Stuðlar BDSM leikur þinn að neikvæðri sjálfsímynd nokkurs? Hann ætti ekki að gera það. BDSM leikur á að vera uppbyggjandi, en ekki niðurbrjótandi.
Í stuttu máli, gerðu allt nauðsynlegt til að upplifunin verði örugg.
Hvað er meðvitund? Margir halda að áhugafólk um BDSM sé ekki með öllu mjalla einfaldlega vegna þessa áhugamáls. Hér er átt við með meðvitund að þú notir dómgreindina. Sýnist þér það vera skynsamlegt? Treystu tilfinningunni og innsæinu. Stundum hugsum við bara með kynfærunum, og það getur verið hættulegt. Ef þú efast, ekki gera það.
Með meðvitund er líka átt við að þáttakendur séu ekki undir áhrifum lyfja eða áfengis. Öryggi fer oft fyrir lítið þegar einhver er undir áhrifum vímuefna.
Það er vissara að bíða þangað til allir eru með sjálfum sér áður en BDSM leikur er iðkaður.
Hvað er samþykki? Allir verða að vera samþykkir því sem gerist í BDSM leik. Engar undantekningar. Þetta felur líka í sér að allir geti tjáð sig á meðan leik stendur og að öllum tjáskiptum sé sinnt. Hvað sem er gert gegn vilja nokkurs er nauðgun. Og nauðgun er ekki BDSM. Nauðgun er álitin ofbeldisfull, glæpsamleg og andstyggileg af öllu ábyrgu áhugafólki um BDSM.
Með samþykki gefur undirlægja sig á vald drottnara af fúsum og frjálsum vilja, án þess að nokkrar líkamlegar eða andlegar þvinganir komi til. Með gagnkvæmu trausti veit undirlægjan að hann/hún getur sett leiknum takmörk, og verið viss um að þessi umsömdu takmörk verði virt. Þar sem BDSM leikur er persónuleg athöfn er drottnarinn alltaf meðvitaður um tilfinningar undirlægjunnar. Í stað þess að meiða kæruleysislega, leggur hann/hún á útmælda skammta af sársauka og erótískri örvun til að fylgjast með viðbrögðunum. Þar sem BDSM leikur á sér yfirleitt stað á milli elskenda, ber drottnarinn umhyggju fyrir tilfinningum undirlægjunnar.
Eins og með svo margt annað, þá er að mörgu að hyggja við iðkun BDSM. Með því að vera með þessar þrjár reglur um öryggi, meðvitund og samþykki á hreinu ertu alltaf snögg(ur) að meta aðstæður án þess að þurfa að rifja upp langan lista boða og banna. Hugleiddu bara með sjálfri/sjálfum þér, „er þetta öruggt, meðvitað og samþykkt?“ Ef svo er, gerðu það þá. Ef svo er ekki, sjáðu til þess að það verði svo ella gerðu það ekki.
En það má ekki heldur gleyma að þetta á að vera gaman. Ef svo væri ekki, hvers vegna væri þá nokkur að þessu? Því mætti bæta orðinu „gaman“ við reglurnar. Svo þá geturðu spurt sjálfa(n) þig „er þetta öruggt, meðvitað, samþykkt og gaman?“ Með því að gera þetta, fullvissarðu þig um að upplifunin verði ekki bara örugg, heldur líka skemmtileg og fullnægjandi.
BDSM athöfnin
Erótísk BDSM kynni tveggja eða fleiri má kalla athöfn (e. scene). Nákvæmari skilgreining á athöfn gæti verið:
Samsetning andlegra -, líkamlegra – og/eða umhverfis-þátta, þar sem valdaskipti eru undirstöðuatriðið, sem blandast þannig að allir þáttakendur njóta ánægjulegrar erótískrar upplifunar.
Athöfn getur varað allt frá fimm mínútum upp í að vera jafn löng og ein helgi. Sumar standa lengur yfir. Burtséð frá tímalengd, ef það stenst ofangreinda skilgreiningu, þá er það BDSM athöfn.
Athafnir hefjast ekki bara þegar þú gengur inn í svefnherbergið. Athafnir geta átt sér stað hvar sem er og þær geta hafist löngu áður en „atburðarásin“ fer af stað og þeim getur lokið löngu eftir að atburðarásinni lýkur. Það er líka hugurinn sem mikið af BDSM leikjum beinist að, ekki kynfærin. Athöfn getur verið með eða án kynmaka. Þetta þýðir að par sem situr nálægt þér á veitingastað gæti verið í miðri BDSM athöfn án þess að þú hafir nokkra hugmynd um það. Skemmtileg tilhugsun, ekki satt?
BDSM athöfnin er þitt eigið erótíska leikhús, þar sem þú býrð til þína eigin fantasíuveröld. Engar tvær athafnir eru eins. Þetta er eitt af því ánægjulega við að upplifa BDSM.
Hvers vegna nýtur fólk BDSM?
Eina rétta svarið er að „enginn veit“, þó margir hafi sínar skoðanir. Kynhneigðarrannsakendur hafa baslað við að finna svör við því hvers vegna fólk njóti þeirra kynnautna sem það gerir, en flest svör eru eingöngu menntaðar tilgátur.
Og er svo mikilvægt að vita afhverju þú nýtur einhvers? Er nauðsynlegt að vita afhverju þú ert hrifnari af súkkulaðiís en vanilluís? Auðvitað ekki. Þú bara sættir þið við það og nýtur uppáhalds bragðtegundarinnar. Sama á við um kynhneigð.
Kynhneigð þín er þitt mál. Meðan það sem þú gerir er öruggt, meðvitað, og samþykkt, þá er í fínu lagi með hana.
Ranghugmyndir um BDSM
Ímyndunaraflið er drifkraftur BDSM leikja. Takmarkið með BDSM er að gera þessar fantasíur að öruggum, meðvituðum, samþykktum og skemmtilegum veruleika. Utanaðkomandi getur séð þetta í allt öðru ljósi. Hvað ef, til dæmis, þú myndir villast inn á upptökustað kvikmyndar án þess að taka eftir kvikmyndatökuliðinu og öllu tilheyrandi? Ef þú sæir tvo leikara í áflogum, þá myndirðu álykta að þú kæmir að alvöru slagsmálum. Það væri engin leið fyrir þig að sjá að þetta væri ekki raunverulegt. Þetta er líkt því þegar fólk, illa að sér um BDSM, heyrir um eða verður vitni að BDSM leik. Þetta er undirrót allra ranghugmynda um BDSM.
Hér eru dæmi um nokkrar ranghugmyndir:
- „BDSM er ofbeldisverknaður.“
Það er ekki hægt að líta á nokkra athöfn, sem er framkvæmd með ást og umhyggju, sem ofbeldisfulla. Ofbeldisfullur einstaklingur kærir sig ekki um öryggi og ánægju annarra. BDSM er ekki ofbeldi. Þetta er önnur leið að ástarleikjum. - „BDSM er óöruggt.“
BDSM er allt annað en óöruggt. BDSM verður að vera öruggt samkvæmt skilgreiningu, annars er það ekki BDSM. Ábyrgir þáttakendur í BDSM sjá alltaf til þess að upplifunin sé örugg. - „BDSM er lítillækkandi fyrir konur.“
Í fyrsta lagi er hér verið að álykta að konur séu alltaf í hlutverki þess undirgefna í BDSM, en sú er alls ekki raunin. Karlar og konur virðast kjósa hlutverk drottnunar og undirgefni nokkuð jafnt. Og í raun virðast flestir njóta hvors tveggja við og við.
Í öðru lagi felst í þessari ranghugmynd sú ályktun að undirgefni sé á einhvern hátt lítillækkandi. Það er algjör fjarstæða. Samband drottnara og undirlægju byggir á vandlega umsömdum, öruggum og umhyggjusömum skiptum milli félaga. Er það lítillækkandi að bera svo mikla umhyggju fyrir einhverjum að þú vilt gera drauma þeirra að raunveruleika? Auðvitað ekki.
Manneskja verður ekki lítillækkuð þegar henni er sýnd ást og umhyggja. BDSM er ekki lítillækkandi fyrir konur eða karla. - „BDSM snýst um sársauka.“
Erótísk kynni geta verið án alls sársauka og álitin BDSM. BDSM snýst ekki um sársauka. Það snýst um ástúðleg og umhyggjusöm valdaskipti milli félaga. Skiptu út orðinu „sársauki“ fyrir orðið „skynjun“. - „BDSM getur ekki verið hluti af heilbrigðu sambandi.“
Þar sem BDSM er bara önnur leið að ástarleikjum, þá á það best heima í sambandi ástar og umhyggju.
Það eru til mikið fleiri ranghugmyndir um BDSM en þær sem hafa verið taldar upp hér, en eftir því sem fólk mun fræðast meira munu viðhorf vonandi breytast. Með nýjum skilningi munu þeir sem vilja njóta BDSM leikja geta tekið þessu sem heilbrigðri tjáningu á kynhneigð sinni.
Margir utanaðkomandi telja að þú verðir að vera bilaður til að hafa löngun til að vera drottnað yfir eða vilja drottna yfir einhverjum. Jafnvel fólk sem þráir innilega BDSM leiki á það til að finna til sektarkenndar eða skammar vegna þessara „sjúku“ langana sinna. Þau sjá þetta í sama ljósi og utanaðkomandi aðilar, án skilnings á því sem raunverulega á sér stað undir ytra byrði BDSM leikja. Þau vita bara að þau æsast kynferðislega við hugmyndina um að vera misþyrmt og niðurlægð, eða við hugmyndina um að niðurlægja og misþyrma félaga, og afleiðingin er að þau eru óánægð með sjálf sig.
Það sem þau skilja ekki er að það er ekki misþyrmingin sem slík sem æsir þau, heldur er það leikurinn með vald og traust með umhyggjusömum félaga. Raunveruleg nauðgun og misþyrming, sama gagnvart hverjum, er án nokkurs vafa sjúk. Öruggt og samþykkt BDSM er skemmtileg og erótísk leið til að kanna annarskonar kynhneigð. Leikir með drottnun og undirgefni eiga ekki að vera álitnir sjúklegir, sérstaklega ekki af þeim sem stunda þá eða vilja stunda þá.
Það heillaráð að tengjast félagi eins og BDSM á Íslandi, ekki bara upp á félagsskapinn, heldur líka til að njóta þess tilfinningalega stuðnings sem meðtakandi samfélag getur veitt. Það er gott að hugsa til þess að þú ert ekki einangraður pervert, heldur er mikið af viðkunnanlegu, andlega heilbrigðu og annars sómasamlegu fólki sem á með þér sameiginlegan áhuga á þessu sviði.
Þessi umfjöllun var unnin upp úr greinunum
„Excerpts from _Learning the Ropes_“ og „S&M: A PLAYER’S HANDBOOK“
sem er að finna á www.sexuality.org
21. júní 1998,
Dunbin Phelless
[email protected]