Nú líður að aðalfundi BDSM á Íslandi sem fagnar 25 ára afmæli á þessu ári (20. janúar s.l.) þá er gott að spyrja sig til hvers að vera með félag eins og BDSM á Íslandi.
Af hverju ég? Ég hef engan áhuga á að mæta á einhverja BDSM fundi. Ég hef engan áhuga á að mæta á BDSM viðburði. Ég hef engan áhuga á að hitta annað en minn rekkjunaut eða maka.
Af hverju ætti ég að taka þátt í einhverju félagi?
Rökin fyrir því að ganga í félagið og styðja við það með því að gerast meðlimur og borga ársgjald eru þau að BDSM á Íslandi er opinber málsvari fyrir BDSM fólk á Íslandi. Ekki einhver einstaklingur út í bæ sem byggir sína BDSM sýn á einhverri bók eða bíómynd (eða tala nú ekki um eins og höfundur grárrar bókar sem byggði sína sýn á BDSM klámi).
BDSM á Íslandi er vakandi fyrir lagafrumvörpum sem geta haft áhrif á líf okkar. Já það er nefnilega hægt að gera tilveru okkar ólöglega með einu lagafrumvarpi. Við þurfum ekki að fara lengra en til UK til þess að geta lennt í fangelsi fyrir BDSM iðkun. Víða í BNA er ekki hægt að veita samþykki fyrir t.d. flengingum þar sem það fellur undir lög varðandi heimilisofbeldi. Það eru þekkt dæmi um að fólk hafi misst barnaforræði af því að það var að stunda BDSM. Það þarf því ekki nema eitt lagafrumvarp til þess að eyðileggja allt okkar. Stjórn BDSM á Íslandi hefur bæði skrifað athugasemdir við frumvörp sem og sent fulltrúa til þess að tala við opinberar þingnefndir fyrir hönd félagsins.
BDSM var á lista yfir geðsjúkdóma þangað til í desember 2015 eftir að félagið með góðum stuðningi margra hafði það í gegn að Embætti landlæknis fjarlægði BDSM úr sjúkdómaskránni.
Baráttan gegn fordómum er endalaus. Þegar við stofnuðum félagið (fyrir 25 árum) þá mátti ekki fjalla um það í kastljósi á venjulegum tíma. Umfjöllunin var færð aftast í dagskránna, eftir miðnætti á mánudagskvöldi. BDSM lendir oft í skotlínunni í baráttunni gegn klámi þar sem BDSM myndir eru oftar en ekki notaðar sem dæmi um ofbeldisklám.
Eftir að BDSM á Íslandi fékk hagsmunaaðild að Samtökunum’78 varð aðgengi að ráðgjöf mun betri auk þess að BDSM hneigðir unglingar fengu betri stuðning í hinsegin félagsmiðstöðinni.
Félagið hefur unnið jafnt og þétt í því að auka sýnileika BDSM fólks undanfarin með því að taka þátt í gleðigöngu hinsegindaga en sýnileikinn er eitt mikilvægasta skrefið í baráttunni við fordóma.
Félagið hefur einnig haldið fjöldamörg námskeið sem gera okkur kleift að læra um og stunda BDSM á öruggari hátt.
Þetta eru bara nokkrar ástæður fyrir því af hverju við eigum að gerast meðlimir í félaginu því við þurfum á fjölmennu og sterku félagi að halda.
Magnús Hákonarson, fyrrv. forman BDSM á Íslandi