Fjötrun eða bindileikir (e. bondage) er það kallað þegar fólk örvast kynferðislega af því að vera bundið eða binda aðra. Hjá sumum tengist þetta eiginlegum sadó-masókisma eða drottnun, en getur einnig einskorðast við fjötrana sjálfa, án þess að sársauki eða niðurlægingar séu með í spilinu.
Til eru ýmis konar aðferðir og útbúnaður sem tengjast fjötrun og gæti sumum komið á óvart hvað hægt er að binda fólk á marga vegu og með mörgum ólíkum hlutum. Nota má allt frá hlutum sem til eru á flestum heimilum eins og treflum, klútum og snæri til sérsmíðaðra leðuróla, handjárna, hlekkja og spennitreyja. Að þessu sinni verður ekki fjallað um tækni eða útbúnað, heldur litið á það hvaða nautn felst í þessu athæfi, hvers konar fólk stundar það og fleira í þeim dúr.
Um fjötrun gildir það sama og um alla aðra óvenjulega kynhegðun, að þeim sem ekki stunda hana veitist oft erfitt að skilja hvað fólk fær út úr þessu, og að sama fólki hættir til að þykja þessi hegðun ógeðfelld og/eða hlægileg. Í raun er alls ekki auðvelt að útskýra í hverju ánægjan felst, að verulegu leyti er það einfaldlega þannig að fyrir mörgum tengist þetta athæfi kynlífi órjúfanlegum böndum, og kynlíf án fjötra er óhugsandi eða að minnsta kosti ófullnægjandi. Þetta mætti líta á sem vandamál, en þá ber að athuga að það er það ekki ef fólk fær tækifæri til að stunda þetta í friði með fólki með sömu áhugamál.
Þó er heldur ekki óalgengt að fólk taki að stunda fjötrun „til að prófa“, án þess að að baki liggi djúpstæð þörf. Margir sem þetta gera hrífast svo af fjötrunum að þeir nota þá reglulega eftir það, þó að e.t.v. sé grundvallarmunur á þeim og hinum sem ekki geta án fjötranna verið.
Hvað er þá ánægjulegt við fjötra út af fyrir sig? Rétt er að taka hvort hlutverk fyrir sig, þess sem bindur og hins sem er bundinn. (Um þessi hlutverk eru notuð ýmis orð, oft eftir samhengi. Oft er talað um drottnara og undirlægju, en í fjötrun eiga þau orð ekki alltaf vel við, því stundum er lítil eða engin eiginleg drottnun á ferðinni. Til bráðabirgða skulum við tala um fjötrara og fanga.)
Margir fjötrarar örvast af því að hafa vald yfir fanganum og að ráða ferðinni og tengist það drottnun náið. Aðrir hafa sjónræna ánægju af því að sjá líkama fangans vafinn fjötrum. Svo er það sú óeigingjarna ánægja sem felst í því að veita fanganum unað sem hann getur ekki veitt sér sjálfur. Auðvitað geta allir þessir þættir farið saman.
Sumum þykir erfiðara að skilja ánægju fangans, en í raun er hún e.t.v. auðskiljanlegri. Fanginn er bjargarlaus, og dæmdur til að taka við þeim atlotum og unaði sem fjötrarinn veitir honum. Hann getur ekki tekið beinan þátt í því sem gerist og hefur því FRELSI til að slaka á og njóta þess sem fjötrarinn gerir. Þannig er fjötrarinn oft í einhverjum skilningi þjónn fangans því að hann þarf að sinna öllum þörfum hans og sjá um að veita honum unað. Að auki eru fjötrarnir góð leið til að komast framhjá óþægindum og höftum sem tengjast kynlífi. Fanginn getur sagt við sjálfan sig: „Ég fæ engu ráðið um það sem gerist, þannig að ég þarf ekki að hafa sektarkennd yfir því.“
Margir halda að fólk geti aðeins notið annað hvort þess að binda eða vera bundið, en raunin er að mjög margir hafa álíka eða jafnmikla ánægju af hvoru tveggja. Þá er það útbreiddur misskilningur að hlutverkin tengist náið kynhlutverkum, þannig að karlar bindi konur, og er það oft þyrnir í augum femínista. Það má vera að sú hlutverkaskipting sé heldur algengari, hvað sem því veldur, en hins vegar er hitt einnig mjög algengt, að konur bindi karla.
Oft tengjast fjötrar munalosta á þann hátt að sjálfir fjötrarnir séu örvandi fyrir fangann og/eða fjötrarann. Þá er þeim oft ekki sama hvers konar fjötrar eru notaðir, heldur vilja helst nota þá hluti sem þeim finnst æsandi.
Loks þarf að ræða um fjötra og ofbeldi. Um fjötrun gildir það sama og um aðrar gerðir BDSM, að hún á ekkert skylt við ofbeldi. Það er algert skilyrði að báðir (eða allir) aðilar séu samþykkir öllu sem gerist og að fyllsta öryggis sé gætt. Ekki er hægt að tala um ofbeldi nema farið sé gegn vilja annars aðilans. Þá erum við ekki lengur að tala um kynlífsleiki heldur ólöglega frelsissviptingu. Þess vegna er líka nauðsynlegt að fanginn geti alltaf látið fjötrarann vita þannig að ekki misskiljist að nú vilji hann losna. Ef þetta er gert og því fylgt eftir er fjötrun, sem alltaf er hægt að láta leysa sig úr, minni frelsissvipting en að vera í strætó sem maður kemst ekki úr fyrr en á næstu stoppistöð.
Af þessu má vera ljóst að þeir sem stunda fjötrun (eða aðrar gerðir BDSM) eru ekki brjálæðingar og nauðgarar, heldur ósköp venjulegt og sauðmeinlaust fólk. Ef eitthvað er er þetta fólk sem er í nánari tengslum við kyneðli og kynlífsunað en gengur og gerist.
Umfjöllun skrifuð af [email protected] þann 17. maí 1998.