I. Nafn, aðsetur og markmið
1. gr. Heiti
Félagið heitir BDSM á Íslandi. Enskt heiti félagsins er The Icelandic BDSM organization. Félagið hefur aðsetur í Reykjavík.
2. gr. Tilgangur og markmið
Tilgangur félagsins er:
- að vera stuðnings- og fræðslufélag fólks með BDSM-hneigðir.
- að BDSM-fólk verði sýnilegt, viðurkennt og njóti fullra mannréttinda í íslensku samfélagi.
- að stuðla að aukinni fræðslu um BDSM út á við sem og fræðslu fyrir BDSM-fólk.
- að halda úti virkri réttindabaráttu um hagsmuni BDSM-fólks.
- að vera opinber málsvari BDSM-fólks.
- að eiga samstarf við sambærileg samtök, hópa og áhugafólk hérlendis og erlendis sem stefna að sömu markmiðum.
II. Aðild
3. gr. Félagsaðild
3.1. Félagar
Félagi getur hver sem er gerst, sem vill styðja félagið og vinna að markmiðum þess.
3.2. Gildir félagar og úrsögn úr félaginu
Félagar fá félagsskírteini sem gildir almanaksárið. Þeir einir teljast gildir félagar með atkvæðisrétt sem greitt hafa félagsgjöld þess árs.
Félagsfólki ber að tilkynna úrsögn úr félaginu skriflega til stjórnar.
Við brottför úr félaginu geta félagar ekki gert tilkall til sjóða eða eigna félagsins.
Bráðabirgðaatkvæði fram að Aðalfundi 2023, viðbót við 3.2
Greiði félagi ekki félagsgjald sjö ár í röð, telst hán ekki félagi lengur og er nafn háns tekið úr félagaskrá. Háni er þó ætíð frjálst að ganga í félagið aftur, kjósi hán svo.
3.3. Félagaskrá
Stjórnin ber ábyrgð á félagaskrá sem einungis er til afnota fyrir stjórn og eru meðlimir stjórnar bundnir þagnarskyldu um hana.
Bráðabirgðaatkvæði fram að Aðalfundi 2023, viðbót við 3.3
Hafi félagi ekki greitt félagagjöld sjö ár í röð, verður upplýsingum um hán eytt úr gögnum félagsins.
3.4. Aðildarfélög
Félög og hópar tengdir hagsmunum BDSM á Íslandi geta tengst félaginu. Slíkar umsóknir ber að leggja fram í síðasta lagi viku fyrir aðalfund. Til samþykktar á umsóknum þarf 2/3 atkvæða á aðalfundi. Hagsmunafélög og hópar skulu hafa sjálfstæðan fjárhag og koma fram opinberlega í eigin nafni en ekki nafni BDSM á Íslandi. Lög eða reglur hagsmunafélaga og hópa mega ekki brjóta í bága við lög BDSM á Íslandi.
3.5.Réttindi og skyldur félaga
Félögum ber skylda til að virða friðhelgi einkalífs þeirra sem sækja starf félagsins.
3.6. Brottrekstur úr félaginu
Hagsmunafélög, hópar eða einstaklingar sem brjóta gegn lögum félagsins skal tafarlaust vísað úr félaginu.
Stjórn getur vísað hagsmunafélögum, hópum eða einstaklingum úr félaginu telji hún tilefni til þess.
Sætti hlutaðeigandi sig ekki við úrskurð stjórnar um brottrekstur getur hann skotið máli sínu til félagsfundar.
Stjórn félagsins styður kæruferli í öllum málum sem upp kunna að koma.
III. Skipulag
4.gr. Starfsár
Félagsárið er almanaksárið.
Reikningsárið er almanaksárið.
5. gr. Aðalfundur
5.1 Skipulag aðalfundar
Aðalfund hvers árs skal halda í mars.
Rétt til fundarsetu og atkvæðarétt á aðalfundi hafa gildir félagar sbr. grein 3.2.
Aðalfundur er æðsta vald félagsins og tekur þær ákvarðanir um starfssemi félagsins sem þörf er á. Til hans skal boða, með tölvupósti á skráða félaga, á heimasíðu og á þeim samfélagsmiðlum sem félagið notar, með minnst þriggja vikna fyrirvara.
Sé lögmæti aðalfundar ekki staðfest skal fundi slitið og nýr aðalfundur boðaður innan viku og haldinn innan mánaðar. Boða skal til hans með sama hætti og almennt á við um aðalfund.
5.2 Kjör formanns
Formaður þarf hreinan meirihluta greiddra atkvæða. Hafi engin einn hlotið hreinan meirihluta í kosningu skal kjósa á milli þeirra sem flest og næst flest atkvæði fengu.
5.3 Kjör stjórnar
Á sléttu ártali skal kosið um tvo stjórnarfulltrúa og landsbyggðarfulltrúa. Á oddatölu ártali skal kosið um þrjá stjórnarfulltrúa.
Segi stjórnarmeðlimur sig úr stjórn á fyrra ári kjörtímabilsins skal annar aðili kosinn í hans stað á næsta aðalfundi og sitja í stjórn til eins árs.
5.4 Kjör skoðunarmanns reikninga og í önnur embætti
Aðalfundur kýs skoðunarmann reikninga sem fer yfir reikninga félagsins fyrir næsta aðalfund. Þá kýs aðalfundur um önnur embætti enda hafi fyrirhuguð kosning verið kynnt í fundarboði aðalfundar.
5.5 Framboð og framboðsfrestir
Framboðsfrestur til stjórnar rennur út tveimur vikum fyrir aðalfund. Framboðum til stjórnar skal skilað skriflega til kjörnefndar og tilgreina varaframboð ef við á. Frambjóðendur til skoðunarmanns reikninga eða annarra embætta skila framboði sínu skriflega til kjörnefndar fyrir aðalfund og tilgreina hvaða embætti þeir sækjast eftir. Öll fyrirliggjandi framboð skulu kynnt á vefsíðu félagsins minnst viku fyrir aðalfund.
Kjörnefnd getur framlengt framboðsfrest ef svo ber undir. Þá er framboðsfrestur til allra embætta framlengdur fram að kosningum á aðalfundi.
5.6 Kosning utan fundar
Fullgildir félagar geta kosið til stjórnar og um önnur auglýst mál utan fundar með því að skila skriflegu atkvæði í lokuðu umslagi til kjörnefndar í síðasta lagi á aðalfundi. Atkvæðin skulu ekki opnuð fyrr en við talningu á aðalfundi.
5.7 Úrslit mála
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála nema um sé að ræða lagabreytingar eða slit félags.
5.8 Dagskrá aðalfundar
Aðalfundur starfar samkvæmt eftirfarandi dagskrá:
- Kosning fundarstjóra og ritara
- Lögmæti aðalfundar staðfest
- Skýrsla stjórnar og reikningar
- Lagabreytingar
- Kosning formanns
- Kosning stjórnar
- Kosning varafulltrúa í stjórn
- Kosning í önnur embætti
- Skoðunarmaður reikninga
- Önnur embætti
- Önnur mál
6. gr. Félagsfundir
6.1 Skipulag og lögmæti félagsfundar
Stjórn boðar til félagsfundar eins oft og þurfa þykir, en að minnsta kosti einu sinni að hausti fyrir lok október.
Til félagsfunda skal boða skriflega eða á heimasíðu og á þeim samfélagsmiðlum sem félagið hefur aðgengi að með minnst viku fyrirvara.
Fundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Komi upp efasemdir um lögmæti fundar skal boða til nýs fundar innan viku sem verður lögmætur með þeim sem mæta.
Sérhver gildur félagi getur krafist þess skriflega til stjórnar félagsins að hún boði til félagsfundar. Stjórn skal halda félagsfund innan tveggja vikna frá því að krafa um félagsfund var lögð fram og auglýsa hann með hefðbundnum hætti viku fyrir fundinn.
Nú hefur stjórn félagsins ekki boðað til fundar innan tveggja vikna eftir að henni barst krafan og geta þá hlutaðeigandi félagar sjálfir kvatt til fundar.
Rétt til setu og þátttöku í umræðum á félagsfundi hafa allir félagar, en atkvæðisrétt hafa eingöngu gildir félagar sbr. 3.2. Félagsfundur getur samþykkt að boða til aukaaðalfundar.
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála á félagsfundum.
6.2. Félagsfundur að hausti
Félagsfundur að hausti skipar þriggja manna kjörnefnd. Kjörnefnd setur sér skriflegar verklagsreglur og ber ábyrgð á framkvæmd kosninga á aðalfundi. Nefndin skal lýsa eftir framboðum og tilnefningum, og vinna að því að framboð berist til kjörs stjórnar og skoðunarmanns reikninga. Kjörnefnd skal leitast við að tryggja að jafnræði ríki hvað snertir m.a. aldur og kyn í hópi frambjóðenda.
6.2.1 Dagskrá félagsfundar að hausti
Félagsfundur að hausti starfar samkvæmt eftirfarandi dagskrá:
- Kosning fundarstjóra og ritara
- Lögmæti fundar staðfest
- Skýrsla stjórnar um stöðu félagsins
- Dagskrá vetrar kynnt
- Ákvörðun ársgjalds næsta árs
- Skipun kjörnefndar
- Skipun í aðrar nefndir
- Önnur mál
7. gr. Félagsgjöld
Félagsfundur að hausti ákveður árgjald næsta árs. Félagsgjöld skulu innheimt í upphafi árs fyrir það ár.
Gjaldkeri hefur eftirlit með innheimtu tekna félagsins og gerir grein fyrir fjárhagsstöðu félagsins í ársreikningum.
IV. Stjórn og hlutverk
8. gr. Stjórn
Stjórn félagsins skal skipuð 7 aðilum. Stjórn ber að halda fundarskrá um fundi sína. Stjórn setur sér stefnu og kynnir félögum innan sex vikna frá aðalfundi.
8.1. Kjörtímabil og hlutverk innan stjórnar
Stjórn samanstendur af formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, landsbyggðarfulltrúa og meðstjórnendum. Formaður skal kosinn á aðalfundi til eins árs í senn. Kjörtímabil annarra stjórnarmeðlima er tvö ár og skal kjósa þrjá annað hvert ár. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Einstaklingum búsettum á landsbyggðinni er frjálst að bjóða sig fram í stjórn með hefðbundnum hætti.
Formaður er oddamaður stjórnar og stjórnar fundum hennar nema að hann skipi annan til þess. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Gjaldkeri ber ábyrgð á fjármálum félagsins, hefur umsjón með öllum eignum þess og útbýr fjárhagsáætlun fyrir félagsárið. Ritari ritar fundargerðir og heldur utan um skjalasafn félagsins.
8.2. Landsbyggðarfulltrúar
Hópar utan Reykjavíkur kjósa sér landsbyggðarfulltrúa með eigin hætti, án viðkomu félaga á höfuðborgarsvæðinu. Landsbyggðarfulltrúi er valinn utan aðalfundar félagsins og tilkynntur á aðalfundi.
Komi hópar utan höfuðborgarsvæðis sér ekki saman um landsbyggðarfulltrúa fyrir aðalfund skal kjósa í stöðu hans á aðalfundi.
8.3. Úrsögn úr stjórn
Úrsagnir úr stjórn skulu vera skriflegar til stjórnar og geta þær gilt tímabundið eða varanlega.
8.4. Varafulltrúi í stjórn
Varafulltrúi er kosinn til árs í senn. Segi stjórnarmeðlimur sig úr stjórn á tímabilinu tekur varafulltrúi við sæti hans í stjórn. Varafulltrúi hefur setu og tillögurétt á stjórnarfundum. Varafulltrúi fær atkvæðisrétt á stjórnafundi hafi stjórnarmeðlimur boðað forföll.
8.5 Stjórnarfundir
Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þurfa þykir.
Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar er mættur.
V. Ýmis ákvæði
9. gr. Aðildarfélög
Stjórn félagsins er heimilt að sækja um aðild að tengdum félögum og samtökum sem brjóta ekki í bága við lög félagsins.
10. gr. Lagabreytingar
Breytingar á lögum þessum má aðeins gera á aðalfundi enda hafi tillögur borist stjórn skriflega eða rafrænt í tölvupósti á netfang félagsins frá félaga eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Þær skulu kynntar á vefmiðlum félagsins fyrir félögum minnst viku fyrir aðalfund. Undanþegnar þessum skilafresti eru tillögur sem lúta að orðalagi og formi en breyta á engan hátt efnislegu innihaldi áður framkominna tillagna.
Lagabreytingar öðlast gildi hljóti þær 2/3 hluta greiddra atkvæða.
11. gr. Slit félags
Tillaga um að leggja niður félagið getur einungis komið fram frá fulltrúa í stjórn. Tillagan skal þá borin upp á aðalfundi sem boðað er til með löggiltum fyrirvara og tillagan kynnt í fundarboði. Tillagan þarf samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða. Verði hún samþykkt skal boðað til aukaaðalfundar að 14 dögum liðnum til að staðfesta og afgreiða hana. Koma skal fram í fundarboði að slík tillaga verði tekin til umfjöllunar.
Til þess að hún verði samþykkt þarf 4/5 hluta greiddra atkvæða á aukaaðalfundinum.
Verði félagið lagt niður skulu eignir þess falla til samtaka sem starfa að sömu eða svipuðum markmiðum og BDSM á Íslandi samkvæmt ákvörðun þess aukaaðalfundar sem staðfesti slit þess.
12. gr. Gildistaka
Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi eldri lög félagsins
Samþykkt á aðalfundi BDSM á Íslandi 20. mars 2022