Ný stjórn BDSM á Íslandi var kosin á aðalfundi sunnudaginn 18. mars sl. Stjórn hefur nú komið saman og sett sér stefnu fyrir starfsárið 2023-2024, eða fram að aðalfundi í mars 2024. Á þessu tímabili ætlar stjórn að leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
- BDSM á Íslandi heldur reglulega viðburði. Stefnt er að því að halda a.m.k. 11 viðburði á starfsárinu. Drög að dagskrá verða kynnt með góðum fyrirvara og kynnt fyrir sumarönn og vetrarönn, eða tímabilið frá byrjun sumars og fram að haustfundi, og síðan frá haustfundi og fram að aðalfundi.
- Stefnt er að því að byrja vinnu við að staðla helstu grunnnámskeið sem við viljum geta boðið upp á reglulega, helst tvisvar á ári, t.d. BDSM 101 og flenginga- og fjötranámskeiðin.
- Áhersla verður áfram lögð á heimasíðu félagsins. Haldið verður áfram að bæta aðgengi með því að þýða sem mest af því efni sem til er yfir á ensku, og langtíma markmið er að allt efni sem sett verður á síðuna sé aðgengilegt á bæði íslensku og ensku.
- Sýnileiki á samfélagsmiðlum. Áfram verður lögð áhersla á að birta reglulega á Facebook og Fetlife. Stjórn mun athuga möguleikann á öðrum samfélagsmiðlum og fýsileikann á sýnileika þar. Efni verður birt í tengslum við málefni líðandi stundar, eins og við á. Viðburðum og öðru efni frá samstarfsaðilum okkar verður dreift. Ekki er þó ætlast til að stjórn sé vakin og sofin að fylgjast með efni frá öðrum aðilum, heldur er það ábyrgð samstarfsaðila að hafa samband við okkur og biðja um dreifingu þegar þörf er á.
- Afslættir fyrir félagsfólk. Þegar er hafin vinna við að útvega afsláttarkjör fyrir félagsfólk í verslunum sem nýst geta félagsfólki. Þessar upplýsingar verða aðgengilegar á heimasíðu og í gegnum póstlista.
- Málstofa um ofbeldi í BDSM-samhengi. Stjórn stefnir að því að koma á fót málstofu á haustdögum þar sem fjallað verður um ofbeldi og viðbrögð við því innan BDSM-samfélagsins. Afrakstur málstofunnar verður nýttur til að vinna að verkferlum hvað varðar ofbeldismál og mögulega útfæra leiðbeinandi siðareglur fyrir félagið og tengda aðila.
- Almannaheillafélag. Stjórn mun skoða hvort æskilegt sé að BDSM á Íslandi verði almannaheillafélag með tilheyrandi lagaskyldum.