Endurvakning BDSM á Íslandi er nú í fullum gangi.
Bráðabirgðastjórn félagsins tók við taumunum 27. nóvember síðastliðinn. Fyrirliggjandi verkefni eru nokkur, en þar má helst nefna:
- Skipulagningu aðalfundar, sem núverandi áætlun gerir ráð fyrir að verði undir lok janúar
- hönnun nýs logos fyrir félagið
- stofnun og stefnumótun Facebook-síðu félagsins
- endurvakningu síðunnar BDSM.is, sem hefst hér með.
Félagslíf BDSM-iðkenda hefur staðið óslitið síðan í sumar. Munch hafa verið haldin í Reykjavík samkvæmt fyrirkomulagi því sem lýst var í síðustu færslu og hafa þau jafnan verið fjölsótt. Munchin á Akureyri hafa færst til, en upplýsingar um tíma- og staðsetningar þeirra má nálgast á Fetlife.com eða með fyrirspurn á tölvupóstfang félagsins (sjá að neðan). Einnig hafa verið haldin örnámskeið í fjötrun og hýðingum sem og leikpartý. Ný af nálinni í félagslífinu eru svokölluð nýliðamunch, en þangað hafa þeir sem nýrri eru í senunni sótt til að kynnast öðrum í svipaðri stöðu við afslappaðar aðstæður. Þau hafa verið haldin með óreglulegum hætti, en verða héðan í frá auglýst hér.
Netumræða íslenskra BDSM-iðkenda hefur síðustu mánuði að mestu leyti farið fram á síðunni Fetlife.com. Þeir sem áhugasamir eru um stöðu mála er bent á að líta þar við. Einnig má sem fyrr senda skeyti á tölvupóstfang félagsins, [email protected].